Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 74 . mál.


Nd.

297. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lánsfjárlögum fyrir árið 1989, nr. 12/1989.

Frá minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Með þessu nefndaráliti eru birt fylgiskjöl frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun sem sýna að áætlun ríkisstjórnarinnar um innlenda lánsfjáröflun mun ekki standast eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Einnig kemur fram í fylgiskjölunum að ríkistjórnin hefur samþykkt 250 millj. kr. lántöku Lánasjóðs íslenskra námsmanna á árinu 1989.
    Minni hl. mun greiða fyrir því að frumvarpið fái afgreiðslu sem fyrst þar sem Byggðastofnun bíður eftir heimild til 350 millj. kr. erlendrar lántöku. Minni hl. tekur ekki afstöðu til frumvarpsins að öðru leyti, enda eru efnisatriði þess einungis viðurkenning á gífurlegum hallarekstri ríkissjóðs.


Alþingi, 12. des. 1989.



Friðrik Sophusson,


frsm.


Matthías Bjarnason.




Fylgiskjal I.


Fjárlaga- og hagsýslustofnun:


Minnisblað um lánsfjárþörf og lánsfjáröflun


ríkissjóðs 1989.



    Samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga 1989 og frumvarpi um breyting á lánsfjárlögum 1989 er innlend lánsfjárþörf ríkissjóðs talin nema 11,3 milljörðum króna á árinu 1989. Erlendar lántökur ríkissjóðs voru áætlaðar rúmir 6 milljarðar króna, þar af 5 milljarðar til að greiða yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabanka vegna ársins 1988 og 900 m.kr. endurlán til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Þessi áætlun hefur ekki breyst sem neinu nemur að öðru leyti en því að ríkisstjórnin hefur samþykkt 250 m.kr. lántöku Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna ársins 1989. Verður það lán tekið um Endurlán ríkissjóðs með sama hætti og aðrar lántökur sjóðsins. Þá eru fjáraukalög 1989 til skoðunar hjá fjárveitinganefnd og er stefnt að því að 2. umr. um þau fari fram um miðja þessa viku. Ekki liggur fyrir hversu áætlaðar greiðsluskuldbindingar ríkissjóðs fyrir yfirstandandi ár munu hækka mikið í meðförum fjárveitinganefndar. Nánari upplýsingar um lánsfjárþörf ríkissjóðs 1989 koma því ekki fram fyrr en við 2. umr. um fjáraukalögin.
    Samkvæmt frumvarpi um breyting á lánsfjárlögum 1989 er gert ráð fyrir að innlend lánsfjárþörf ríkissjóðs verði brúuð með eftirfarandi hætti:

    Sala á spariskírteinum ..................         6.000 m.kr.
    Sala á ríkisvíxlum ......................         3.800 m.kr.
    Önnur lántaka ...........................         1.500 m.kr.
             ————
    Samtals              11.300 m.kr.

    Heildarsala spariskírteina ríkissjóðs á árinu 1989 nam 6. des. sl. um 4.600 m.kr. Heildarinnlausn eldri skírteina nam sama dag um 4.150 m.kr. Erfitt er að áætla hver salan verður fram til áramóta. Þess má þó geta að lífeyrisjóðum hefur verið gert tilboð um kaup á spariskírteinum fyrir um einn milljarð króna.
    Gert er ráð fyrir að nettósala ríkisvíxla á árinu nemi 3.800 m.kr. Þann 7. des. nam nettósalan 3.200 m.kr. og hafði lækkað um 800 m.kr. frá lokum september.
    Ljóst er að erfitt verður að ná fram þeim áformum um innlenda lánsfjáröflun sem nefnd eru að ofan. Það sem upp á kann að vanta verður fjármagnað með yfirdrætti hjá Seðlabanka Íslands. Samkvæmt lögum um Seðlabanka ber ríkissjóði að gera upp yfirdráttarskuld sína við bankann eigi síðar en í marslok árið eftir. Miðað við áform ríkissjóðs um innlenda lánsfjáröflun á næsta ári er líklegt að yfirdráttarskuld við Seðlabankann verði gerð upp með erlendri lántöku.

11. des. 1989.


Halldór Árnason.





Fylgiskjal II.


Sala og innlausn spariskírteina 1989.


(Ríkisábyrgðasjóður, 7. desember 1989.)

(Texti fylgiskjals er ekki til tölvutækur.)